Félagslíf nemenda JSB

Dansmenning og félagslíf

Skólastarf JSB er suðupottur dans- og barnamenningar. Mikið félagslíf tengist viðburðum og sýningum á vegum skólans. Ýmislegt er gert til að efla félagslíf í skólanum t.d. hafa kennarar skipulagt gistinótt “sleep over” fyrir nemendur 13-15 ára þar sem nemendur mæta í dansskólann með dýnu og svefnpoka og gista. Haldin er kvöldvaka þar sem farið er í hópeflisleiki, borðað og spjallað en með því er stuðlað að því að nemendur nái að kynnast. Nemendahópar frá 13 ára aldri hafa fengið að spreyta sig í alheimskeppninni Dance World Cup, bæði í undankeppni hérlendis sem og aðalkeppni erlendis og er þátttakan mikil upplifun. Skólinn hefur einnig staðið fyrir dansferðum til London undanfarin ár fyrir 15 – 17 ára nemendur. Í dansferðum sækja nemendur danstíma í London Studio Center og/eða Pineapple dancestudios, farið er á danssýningar, söngleiki o.fl. ferðirnar hafa verið mjög vinsælar og lærdómsríkar fyrir nemendur.

Árlega stendur skólinn fyrir skipulögðum leikhúsferðum þar sem nemendur og kennarar fara saman á danssýningar hjá Íslenska dansflokknum. Þar fá nemendur tækifæri til að njóta sín saman sem áhorfendur og leikhúsgestir. Nemendafélag framhaldsskólastigs stendur fyrir árshátíð á hverju vori og ýmislegt fleira er gert til að efla dansmenningu og félagslíf nemenda.