Month: maí 2021

Nemendasýning JSB

Um sýninguna:

Árlega fá nemendur Danslistarskóla JSB tækifæri á að spreyta sig í gegnum dans og leik á Stóra sviði Borgarleikhússins en skólinn leggur ríka áherslu á að nemendur fái að upplifa og skynja töfra leikhússins í gegnum danslistina. Nemendasýningin í ár er frumskapað dansævintýri sem nefnist FÖR Í IÐUR JARÐAR. Innblástur sýningar er sóttur í náttúru Íslands og leyndardóma Snæfellsjökuls.

Sýningar

Mánudaginn 31.maí kl.17 og kl.19

Þriðjudaginn 1.júní kl. 17 og kl.19

Miðaverð: 2900 kr.

-Hægt er að kaupa miða í Sal og á Streymi

Fjöldi miða í áhorfendasal tekur mið af gildandi samkomutakmörkunum. Það lítur út fyrir að fjöldatakmarkanir verði rýmkaðar á næstunni og að næg sæti verði til fyrir áhorfendur í sal. Tryggið ykkur miða tímanlega og hlökkum til!

Athugið! Foreldrar sem eiga systkini í skólanum sem sýna á sitthvorum sýningardegi fá 2 fyrir 1

Ef systkini sýna á sitthvorum nemendasýningardegi þá fá aðstandendur 2 fyrir 1 þ.e. greiða einungis fyrir miða á aðra sýninguna og fá þá jafnmarga frímiða á hina. Vinsamlegast hafið samband við miðasölu Borgarleikhússins ef börn ykkar sýna á sitthvorum sýningardeginum.

Sumarskóli Listdansbrautar JSB

Sumarskóli JSB 14.júní-7.júli. Fyrir alla nemendur fædda árið 2006-2001

-Styrktur af mennta og menningarmálaráðuneytinu.-

– Námið er nemendum að kostnaðarlausu. –

Sumarskóli JSB er sértækt námsúrræði stjórnvalda ætlað nemendum í framhaldsskóla og á síðasta ári grunnskóla. Áfangarnir eru ætlaðir til kynningar fyrir nemendur sem hafa hug á að fara í nám á nútímalistdansbraut en einnig eru áfangarnir kærkomin viðbót fyrir nemendur sem nú þegar stunda nám á listdansbraut eða hafa nýlokið námi og vilja bæta við sig. 

Markmið stjórnvalda með úrræðinu er að sporna gegn tímabundnu atvinnuleysi og efla menntun meðal ungs fólks. Námið er kostað af ríkinu og því ókeypis fyrir nemendur.
Allir áfangarnir samræmast staðfestum náms- og brautarlýsingum fyrir listdansbraut MH. 

-Boðið verður uppá 3 áfanga, lágmark í hvern áfanga er 20 nemendur. Hver áfangi veitir 1 einingu og ákveður nemandi hversu margar áfanga hann vill taka.

-Innritunargjald er 3.000kr í  hvern áfanga og endurgreiðist við lok námsins.

-SKRÁNING HÉR-

-Hver áfangi er kenndur 5x 90 mín á viku-

  • Ballett 14:30-16:00
  • NTD 16:15-17:45
  • JAZZ 18:00-19:30

-Klassískur ballet, áfangi KLAD1GÞ01  kl.14:30-16:00-

Áfangalýsing:
Í þessum áfanga er lögð áhersla á grunnþjálfun í klassískum ballett. Áfanginn er góður undirbúningur fyrir frekara nám í klassískum ballett á nútímalistdansbraut. Áhersla er á rétta líkamsbeitingu, líkamsstöðu og samhæfingu líkamshreyfinga við tónlist. Þá er áhersla lögð á að kynna fyrir nemendum orðaforða klassíska ballettsins. Stuðst er við uppbyggingu annars árs Vaganovakerfis. 

-Nútímadans, áfangi NTDA2NR01 kl.16:15-17:45-

Áfangalýsing:
Í þessum áfanga fá nemendur að kynnast áherslum og aðferðum í Release tækni. Lögð er áhersla á öndun og hvernig hún samhæfist hreyfingum líkamans, líkamsstöðu, líkamsstjórn, notkun þyngdaraflsins og líkamsvitund. Efni áfanga byggir á hugmyndafræði Release tækninnar sem rekja má til frumkvöðlanna José Limón, Eric Hawkins, Joan Skinner o.fl. 

-Jazzdans, áfangi DJAS2CJ01  kl.18:00-19:30-

Áfangalýsing:
Á mörkum jazz- og samtímadansins. Unnið er með samspil jazzdans og jazzdanstækninnar við strauma og stefnur í nútímadansi samtímans. Unnið er með fjölbreytta tónlist og leitast við að skapa jazzdansinum frjóan farveg í samtímanum. 

Hér má sjá nánar um sumarskólann

Kennarar sumarskóla JSB.

Karen Eik er útskrifaður dansari frá Tanzakademie Balance 1 í Berlín. Hún verður með hörku danstíma hjá okkur í sumarskólanum og mun svo dansa með okkur áfram inní veturinn!! Karen er líka JSB-ingur í húð og hár. Við erum mjög spenntar að fá hana aftur til okkar.

Auður Huld er útskrifaður dansari frá Institute of the Arts Barcelona á Spáni. Hún kennir hjá okkur í sumar og næsta vetur. Við erum mjög spenntar að fá Auði í JSB og hlökkum til komandi samstarfs.

Lív er 24 ára útskrifaður dansari frá ArtEZ Hogeschool Voor de Kunsten í Hollandi. Hún ætlar að kenna nútímadans í Sumarskólanum, einnig erum við svo heppnar að fá hana til kennslu við listdansbrautina næsta vetur. Við bjóðum Lív velkomna til JSB.